Persónurnar

Klara Sif er 10 ára, ákveðin, þrautseig en ekki mjög þolinmóð og frekar uppstökk. Hávaxin, venjuleg stelpa með dökkt úfið hár. Hún hefur engan sérstakan áhuga á íþróttum, en nýtur þess að fikta og brasa og prófa sig áfram. Hún er hávær, hamast mikið og kemur sífellt inn með grasgrænku í buxunum. Hún á mikið af eyrnalokkum og spariskóm, og uppáhalds dótið hennar er Barbie, sem hún á mikið af og hefur safnað síðan hún var lítil. Klara á tvö yngri systkini, Jakob Frey, 3 ára og Freydísi Dögg, 6 ára. 

Atli Pawel er 11 ára, frekar lítill miðað við aldur með ljósrautt hár. Hann er mun rólegri en vinkona hans, Klara, og hann hugsar meira áður en hann framkvæmir. Hann æfir fótbolta, án þess að hafa gríðarlegan áhuga á íþróttinni, en hefur þeim mun meiri áhuga á fiðlunni sem hann lærir á í tónlistarskólanum. Atli er varkár og veður ekki út í óvissar aðstæður. Hann hefur gaman af bókum og spilum. 
Atli er einbirni, en pabbi hans kemur frá Póllandi. Fjölskyldan hefur alltaf búið á Íslandi, en fara til Póllands á hverju ári að heimsækja föðurfjölskyldu Atla.